Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Vetrarorkan

Hvernig bregst líkaminn við orkubreytingum vetrarins.

Samkvæmt kínversku læknisfræðunum breytist orkan frá sumri til hausts, orka haustsins minnkar og dregst saman. Þegar vetur gengur í garð breytist veðráttan enn, orkan verður hægari og kaldari umhverfis okkur og um leið hefur það áhrif á líkamann.

Þau líffæri sem helst eru talin vera undir álagi á veturna eru nýrun og þvagblaðran. Kínversku læknisfræðin mæla með mataræði, hreyfingu og venjum sem hjálpa fólki að aðlagast vetrinum og verða þannig upp á sitt besta. Algengir kvillar á veturna eru bakverkir, flensa og aðrir verkir sem tengdir eru stoðkerfinu. Ef þú ert með þráláta verki fyrir geta þeir versnað á veturna.

Hvernig kem ég í veg fyrir bakverki á veturna?

Kínversku læknisfræðin horfa á líkamann sem eina heild og frá því sjónarhorni mæla þau með að meiri svefni. Svefninn hefur áhrif á grunnorkuna sem við göngum á yfir daginn. Samkvæmt fræðunum spila nýrun stærsta hlutverkið í myndun grunnorkunnar, en nýrun eru einmitt staðsett rétt fyrir ofan mjóbak.

Þegar okkur vantar grunnorku getur bakverkur myndast eða aukist ef verkur er þar fyrir. Með því að sofa meira verður aðlögunarhæfni líkamans auðveldari og þú finnur síður fyrir bakverkjum. Vetrinum fylgir alltaf kuldi, æðarnar dragast saman, þá hægir á blóðflæðinu og kroppurinn herpir sig. Það má segja að líkaminn fari í “vörn” gegn vetrinum. Þegar það gerist geta gigtarverkir eða aðrir verkir sem fyrir voru versnað. Herpingur og kuldi hefta gott blóð – og orkuflæði.

Hvaða matarvenjur og tegundir mæla kínversku fræðin með?

Að borða heitan mat og hægeldaðan í litlu vatni. Lítið vatn í matargerð er hugsað til þess að halda betur næringarefnum matarins í fæðunni. Fræðin segja að þegar við eldum fæðuna svona þá þurfi líkaminn ekki að nota jafn mikla orku í meltinguna, í staðinn getur hann frekar einbeitt sér að því að halda góðu og jöfnu hitistigi.

Matartegundir sem varðveita orku og styrkja hana eru fjölmargar. Ég nefni aðeins örfáar tegundir hér; tegundir eins og valhnetur, sætar kartöflur, lauk, kjúkling, blómkál, sellery, rauðrófur, gulrætur, brokkoli, hvítlauk, sveppi, rófur og kartöflur. Pottréttir, hrísgrjónasúpur og kássur sem innihalda eitthvað að matnum sem ég nefndi hér að ofan er samsetning sem líkaminn fagnar á köldum vetrarmánuðum.

Hvaða hreyfing er talin vera best á veturna?

Kínversku læknisfræðin mæla með hreyfingu sem er kyrrlát og hæg eins og orka vetrarins er. Að stunda jafnvægislist eins og Qi-gong, Tai chi, teygjur, yoga, göngutúra og æfingar sem styrkja neðri hluta líkamans, einsog hnébeygjur og framstig, er skynsöm leið til að halda í og bæta við grunnorku líkamans.

Hvernig get ég komið í veg fyrir flensusmit?

 Á vetrarmánuðum á fólk oftar samskipti innan dyra, í lokuðum rýmum og oft á tíðum með mörgu fólki í einu. Þá er smithættan meiri. Dæmi má nefna leikskólaflensur sem allir foreldrar þekkja vel. Alls konar vinnufundir og ráðstefnur skapa meiri hættu á flensusmiti og þá er ráðlagt að þvo hendur oftar en vanalega og reyna að forðast að vera með þær í andlitinu. Hægt er að kaupa bakteríudrepandi gel sem maður getur haft í vasanum og gripið til á milli á mannamótum.

Njóttu vetrarins og verndaðu orkuna

Þórdís Filipsdóttir

Eigandi Tveggja heima