Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Svefnleysi

Bandarískur svefnfræðingur, dr. Andrew Weil, hefur þróað svonefnda 4-7-8 aðferð til að róa hugann og slaka á vöðvum og þar með auðvelda þeim sem notar aðferðina að festa svefn. Rannsóknir sýna að svefnleysi eykur hættu á alvarlegum sjúkdómum þar á meðal offitu, hjartveiki og sykursýki auk þess að minnka líkur á langlífi. Þegar dr. Andrew Weil lýsir aðferð sinni sjá qi gong iðkendur að þetta er qi gong aðferð.Þeir sem vilja nýta sér aðferðina anda blíðlega inn um nefið með tungubroddinn í efri gómi. Síðan er loftinu blásið út um munninn. Galdurinn felst í því að telja upp að fjórum á innöndun, halda í sér andanum og telja upp að sjö. Síðan tæma lungun alveg og telja upp að átta. Þetta er endurtekið tvisvar til fjórum sinnum.
 Dr. Weil segir að þetta skili árangri, fylli lungun lofti og auki súrefni í líkamanum sem skapi ró. Hann hvetur til að æfingin sé gerð af trúarlegri alúð tvisvar á dag eða oftar. Hún krefjist ekki annars en að gefa sér tíma til ástundunar. Eftir fjórar til sex vikur verði menn varir við frábærar líkamlegar breytingar.
 
Iðkið 4-7-8 aðferðina á þennan hátt:
 
1. Tæmið lungun alveg með því að blása út um munninn.
2. Lokið munninum og andið blíðlega inn um nefið með tungubroddinn í efri gómi og teljið upp að fjórum.
3. Haldið í ykkur andanum og teljið upp að sjö.
4. Tæmið lungun alveg, blásið út um munninn og teljið upp að átta.
5. Þetta er ein umferð. Endurtakið – gerið þetta alls fjórum sinnum.