Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Námskeið í Tai chi

Tai Chi Quan Yang Style ( Fyrir byrjendur á öllum aldri)

Tai Chi Quan Yang Style er eitt vinsælasta Tai Chi kerfið af mörgum vinsælum og það kerfi sem er hvað útbreiddast í heiminum nú um stundir. Tai Chi kerfin eiga öll uppruna sinn í kínverskri bardagalist, nánar til tekið í Kung Fu.

Sá sem iðkar Tai Chi bætir líkamlega og andlega vellíðan sína og eykur styrk sinn og jafnvægi. Tai Chi æfingar eru tæknilegar og þær eru ítarlegri en Qi-gong æfingar, en eins og Qi- gong hreyfingarnar eru Tai Chi hreyfingarnar bæði hægar og mjúkar, líða áfram og henta vel ungum jafnt sem öldnum.

Tai Chi á heimspekilegar rætur sínar í Yin og Yang sem eru andstæðir kraftar allrar tilverunnar; náttúruöfl sem geta ekki hvort án annars verið frekar en dagurinn og nóttin, hægri hliðin og vinstri, uppið og niðrið, innöndun og útöndun. Iðkun Tai Chi eykur og skerpir samhæfingu heilahvelanna, við færum hina heimspekilegu hugsun til líkamans og hreyfum hann samkvæmt andstæðukenningu Yin og Yang.

Geta má þess að Harvard Medical School telur Tai Chi eina af fimm bestu hreyfingum sem hægt er að stunda til að styrkja líkamann og draga úr hættu á sjúkdómum. Iðkun Tai Chi bætir jafnvægi og hreyfigetu, styrkir bein og ónæmiskerfi, verndar liðamótin, vinnur gegn minnistapi og dregur úr líkum á hjartveiki og sykursýki, svo fátt eitt sé nefnt.

Tai Chi hreyfingarnar henta öllum sem vilja styrkja líkama sinn og efla hugann; hreyfingarnar eru til dæmis sérlega góðar fyrir eldra fólk því með aldrinum veikjast jafnvægisskynfærin, sjónin daprast, heyrnin dofnar og jafnvægisskynið minnkar.

Tai Chi hreyfingarnar eru sannkölluð hugleiðsla með öllum líkamanum og hver tími er í 60 mínútur.

Kennarar Þórdís og Filip