Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Útiæfingar á sumrin

Klambratún 

Tveir Heimar hafa staðið fyrir sumariðkun Qigong og Tai chi á Klambratúni síðan 2015. Frá upphafi fengum við Reykjavíkurborg og Qi gong áhugamannafélagið Aflinn til liðs við okkur. Samstarfið hefur gengið mjög vel og eru allir ánægðir með hvernig til hefur tekist.

 Tvisvar í viku, bæði á þriðjudögum og fimmtudögum kl 11:00, hefur fólk komið úr öllum áttum og iðkað saman Oi gong og Tai chi á milli trjánna í “skeifunni” sem er hringlaga grasflötur umkringdur trjám og aflíðandi brekkum.

Stemmningin hefur ávallt verið ljúf í “Qi gong lundinum” sem er sérmerktur bæði á íslensku og kínversku, en uppruni hreyfinganna er frá Kína. Að jafnaði hafa 100 manns mætt í hvern tíma, oft fleiri, og óhætt að segja að þegar svo margir sameinast í sameigninlegum takti, hreyfa sig hægt og anda rólega og djúpt, skapist endurnærandi og orkugefandi andartök.

Eftir tímann hefur fólk skundað á Kjarvalsstaði og fengið sér kaffibolla og eða notið veðurblíðunnar í grasinu; einhverra hluta vegna er alltaf besta veðrið á túninu á meðan æfingarnar standa yfir, það styttir meira að segja upp ef rignt hefur og sólargeislarnir skjóta sér milli skýjanna þegar margar hendur rísa til himins.

Einnig bjóðum við upp á lokuð sérhæfð námskeið í Tai chi og Qigong undir berum himni á sumrin. Þau eru auglýst sérstaklega á Facebook.