Tveir heimar - Suðurhlíð 35

KJARNÞJÁLFUN 核 子动 力 学

KJARNÞJÁLFUN 核 子动 力 学

Þórdís Filipsdóttir hefur þróað meðferðakerfið kjarnþjálfun.

Kjarnþjálfun er einstaklingsmiðað meðferðarkerfi sem tekur á persónulegri heild einstaklingsins. Allt er tekið með í reikninginn; tilfinningar, hugsanir, líkaminn, umhverfið og matarvenjur. Kjarnþjálfun krefst líkamlegrar og hugarfarslegrar þjálfunar og aga. Áhersluþættirnir fara eftir einstaklingnum, sem þýðir að kjarnþjálfun er fyrir alla og þá gildir einu í hvaða ástandi þeir eru.

Aðferðin byggist á átta áhersluþáttum

Samtal

Samtalið snýst um þig, tilfinningar, hugsanir, atvik og umhverfi. Markmiðið er að skoða heildrænt tengslin á milli líkamlegra kvilla, líðanar og þess sem viðkomandi hugsar og trúir. Dæmi: Ef manneskja er með króníska bakverki og samtímis að glíma við krónískan ótta, þá er það skoðað og meðhöndlað heildrænt. Ef manneskja er að ganga í gegnum sorg, hefur ekki unnið úr sorginni og fær gjarnan lungnakvef jafnvel bólgu, þá er það skoðað heildrænt. Í kínverskri læknisfræði er litið svo á að tilfinningar geti tekið sér bólfestu í líkamanum. Sorg sest aðallega á lungnakerfið. Þessvegna tekur fólk svo til orða að því sé þungt fyrir brjósti.

Teygjur

Sleppa tökunum. Losun. Teygjur eru til að lengja og víkka, leysa upp stirðleika í vöðvum og þeim festum sem eru í líkamanum. Einnig eru teygjur notaðar í Kjarnþjálfun til að losa um höft. Þá er framkvæmdin þannig að þjálfarinn “talar” þig inní teygjuna, málefnið er tekið fyrir sem kallar fram andlega og/eða líkamlega fyrirstöðu og hugur og líkami notaður til að losa.

Hreyfiflæði

Hreyfiflæði er blanda af allskyns hreyfingum og æfingum án lóða og tækja og þær eru gerðar með líkamanum í takt við getu hvers og eins. Dæmi: Jafnvægisæfingar, þolæfingar, styrktaræfingar.

Qi-gong og öndun
Agi, hugleiðsla, fókus og eftirtekt. Qi-gong æfingar eru umbreytingarleið fyrir orkuna sem býr í líkamanum. Orkan rennur og umbreytist stöðugt. Með Qi-gong æfingum og öndun hjálpum við heilanum og líkamanum að ná samhljómi. Qi-gong verkar beint á taugakerfið og er einstaklega áhrifaríkt gegn þunglyndi, athyglisbresti og kvíða. Að sama skapi hefur Qi-gong reynst frábærlega vel gegn stoðkerfisvandamálum. Töfrarnir birtast með reglulegri ástundun.

Heilun/slökun
Heilun er slökun og um leið endurnýjun fyrir þreyttan huga og líkama. Lagst er á bekk og notar þjálfarinn slökunartækni til að ná djúpri slökun. Tæknin sem er notuð er byggð á kínverskum lækningum. Heilun kemur á jafnvægi ef streita, álag eða spenna er í tilvistinni. Dæmi: Vinnustreita, álagstímabil, langvarandi þreyta, hár blóðþrýstingur o.s.frv.

Nálastungur
Nálastungur eru ávallt notaðar í Kjarnþjálfun nema að manneskjan velji að gera það ekki. Í nálastungu er unnið með orkuna; samspil líffæranna, blóðið, beinin, sinar, liði, og tilfinningar. Oft er fyrirstaða í orku líkamans sem getur birst sem bólgur, vökvasöfnun, stoðkerfisverkir, blóðþrýstings- og svefnvandamál og óþægindi vegna breytingaskeiðs.

Verkefni
Verkefni Kjarnþjálfunar eru persónubundin og ráðast af því hvernig manneskjan er og við hvað hún á að etja. Dæmi um verkefni er t.d. eftirtekt ákveðinna hugsunarmynstra eða tilfinninga með tilteknum æfingum. Qi-gong æfingar til að efla fókus, æfingaáætlun sem kjarnþjálfari býr til og leiðbeinir um, að halda dagbók, lestur, hugleiðsla, öndun og svo lengi mætti telja.

Áætlun

Vikuleg áætlun er oft nauðsynleg til að hafa heildarsýn yfir tímabil. Áætlanir eru notaðar eftir þörfum. Sumum henta ekki áætlanir og þá er notuð önnur leið sem ég kalla flæðandi áætlun. Flæðandi áætlun er þannig að stigið er inn í augnablikið hverju sinni og það tekið fyrir sem kemur, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt.