Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Hugleiðslustaðan-MA BU

HESTASTAÐAN-MA BU

 Í kínversku þýða orðin MA– hestur og BU – staða. MA-BU þýðir þá hestastaða. Geta má þess að hvert orð í kínversku getur þýtt ótalmargt vegna mismunandi tóna og samsetningar tákna í tungumálinu.

Ma-Bu er líkamsstaða sem hefur verið ástunduð í kínverskum bardagalistum í þúsundir ára. Hún er iðkuð til að byggja upp sterkar og liðugar mjaðmir, fótleggi og um leið til að aga hugann og líkamsburðinn allan. Ma-Bu var iðkuð af bardagamönnum sem voru á leið í stríð ríðandi á hestum. Þeir voru látnir þjálfa bardagatækni í Ma-Bu stöðunni svo þeir yrðu sterkir á vígvellinum sjálfum.

Stöðunni eða æfingunni er best lýst á þann hátt að það er eins og iðkandinn sitji klofvega á hesti með handleggina fram eins og hann haldi í beislið. Þetta sést vel á myndinni. Æfingin er líka kennd með annarri handstöðu, það fer eftir því hvaða leið kennarinn velur. Við í Tveimur heimum veljum þessa: Hryggurinn er teinréttur, axlirnar slakar og mjaðmirnar í beinni línu undir iðkandanum. Fætur hans snúa beint fram og hnén eru beygð að stóru tá, ekki lengra. Hægt er að gera æfinguna bæði erfiða og létta, það fer eftir tilgangi og markmiði hvers og eins.

Í Tveimur heimum kennum við MA-BU æfinguna sem styrktaræfingu og því varir létt spenna í dálítinn tíma án nokkurar hreyfingar; þessi tegund hreyfingar er kölluð isometrísk æfing. Með iðkun MA-BU æfingarinnar eykst blóðflæðið til allra sina og liðamóta í mjöðmum, hnjám, ökklum, öxlum, olnbogum og úlnliðum. Venjulega flæðir blóðið ekki jafn örugglega til liðamóta og það gerir til vöðva, en með ástundun MA-BU er blóðflæðinu reglulega beint um þá hluta líkamans sem eru oftast undir miklu álagi og minna flæði leikur um. Sterkar og liðugar mjaðmir, ökklar og hné koma í veg fyrir allskyns líkamleg vandamál og séu þessir hlutar líkamans í góðu formi er auðveldara að beita sér í hinum ýmsu aðstæðum.

MA-BU æfingin er líka fyrirbyggjandi. Hún kemur í veg fyrir verki sem eru tíðir hjá fólki til dæmis hnjáverki, verki vegna stífra mjaðma, bakverki, liðverki – og þess verður að geta að MA–BU hefur hjálpað mörgum sem glíma við alls kyns jafnvægistruflanir.

Hvers vegna ættum við að iðka MA-BU æfinguna ?

 Nr 1 : Hún eykur jafnvægi á milli liðleika og styrks.

Nr2 : Hún bætir orku og blóðflæði til sina og liðamóta.

Nr 3 : Hún eykur þol

Nr 4 : MA-BU agar hugann og brýnir.

 

 Þegar Ma-Bu æfingin er iðkuð ber að hafa þrennt neðangreint í huga:

 

Nr 1: Líkamasstaðan þarf að vera rétt.

Nr 2: Öndun og einbeiting sömuleiðis

Nr 3: Ásetningingur þarf að vera skýr. ( Til að finna viljastyrkinn og auka agann verður ásetningurinn að vera skýr)

 

Þórdís Filipsdóttir