Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Haustorkan

Hvernig bregst líkaminn við breytingum haustsins?

 Samkvæmt kínverskum læknisfræðum er orka haustsins þyngri en hin létta orka sumarsins. Haustorkan hægir á ferðinni, hún gerir okkur hæglát og ígrunduð í hugsun, andstætt flæðandi og áhyggjulausri orku sumarsins. Á haustin byrjar skólinn, alls konar námskeið fara í gang og einbeitingin er í hávegum höfð. Á þessum árstíma eykst áhugi manna fyrir hvers kyns prjónamennsku og fólk tekur sér gjarnan bók í hönd til að lesa við kertaljós í kyrrð og ró. Fleira mætti auðvitað nefna en ég læt hér við sitja.

Haustorkan leiðir líka hugann að málefnum er varða sjálfskoðun og skipulagningu komandi vetrar. Ef þig langar til að byrja að hugleiða eða hreinsa til í kringum þig og losa þig við eitthvað sem gagnast þér ekki lengur, þá styður haustorkan við þá iðju þína.

Kínverska læknisfræðin segir að á haustin fái fólk oftar kvef og hósta en á öðrum árstíðum, það kemur örugglega fæstum Íslendingum á óvart, þekkjandi vel hin leiðu haustkvef. Ef þú ert með  astma eða aðra öndunarfærissjúkdóma getur þú hæglega orðið viðkvæmari fyrir á haustin en á öðrum árstímum. Einnig gerir hægðatregða oftar en ekki vart við sig.

Hvers vegna?

Hverri árstíð fylgir mismunandi loftslag. Vorið ber með sér vind, vetur ber með sér kulda, sumarið ber með sér hita og haustið ber með sér þurrk. Þessar breytingar í veðráttunni hafa áhrif á starfsemi líkamans. Þau líffæri sem eru viðkvæmust á haustin eru lungu og ristill og þess vegna er gott að byrja að taka inn olíur til að halda húðinni mjúkri og hægðunum gangandi. Auk þess er gott að klæða sig í hlýrri föt og drekka volgt vatn eða te.

Á haustin er betra að borða mat sem er hægeldaðaður eða soðinn. Hafragrautur, súpur, kjötkássur og rótargrænmeti er matur sem kínverska læknisfræðin mælir með til að aðlagast betur haustorkunni.
Fræðin segja einnig að ef í þér býr sorg, til dæmis vegna ástvinamissis, geti haustorkan aukið hugsanir og tilfinningar sem tengjast sorginni. Ef þú þarft að gráta meira en vanalega þá skaltu leyfa þér það.
 

Þú ert undir áhrifum frá náttúrunni, taktu á móti haustinu og njóttu þess.
 


Þórdís Filipsdóttir, eigandi Tveggja heima.