Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Að lesa

„Lestur er svo stór hluti daglegs lífs okkar að við tökum ekki lengur eftir honum – við fáum tölvubréf eða smáskilaboð, sjónvarpsþættir eru textaðir, auglýsingaskilti birtast. Hvað sem þessu líður gefur lestur gullið tækifæri til hugleiðslu – að beina huganum að því sem gerist hér og nú, vitundin er lifandi án þess að taka afstöðu til þess sem gerist innra með okkur og í kringum okkur.  Notið sumarið til að ýta óvirkum lestri til hliðar, skima eða lesa um leið og sýslað er við eitthvað annað og reynið að lesa af gjörhygli.“ – Marcella Frydman Manoharan, annar stofnanda Cambridge Coaching sem sérhæfir þjálfun og leiðsögn við nám.
Finnið tóm til þess að einbeita ykkur að lestri í stað þess að reyna að troða honum á milli annarra verkefna eða að ná nokkrum blaðsíðum í rúminu fyrir svefn.
Veljið lesefni sem grípur hugann frekar en leggjast á hann, eitthvað sem krefst dálítillar hugarorku en bætir ekki einni línunni á listann yfir það sem þið eigið eftir ógert. Nóg er til af efni: skáldsögur, ævisögur, sagnfræði en einnig safn ritgerða, vísindaskrif, ljóð og langar úttektir blaðamanna.
Hugið að því að lesa texta á blaði. Ef þið lesið mikið á skjá – símanum, tölvunni eða spjaldtölvu – getur það auðveldað gjörhyglilestur að hafa textann fyrir framan sig á flettanlegri bók.
Þegar þið flettið blaðsíðunum, takið eftir birtunni, litnum á blaðsíðunni og jafnvel lyktinni af prentsvertunni, hugið að því hvernig kjölur bókarinnar hvílir í lófanum. Að ykkur kann að sækja leiði eða svefn. Takið eftir: Þetta sýnir að sál og líkami róast – það er einmitt markmiðið með þessari æfingu.
Veitið málfarinu athygli. Veltið einstökum orðum fyrir ykkur; flettið torkennilegum orðum upp í orðabók. Notið jafnvel blýant til að strika undir setningu sem grípur ykkur eða látið nægja að festa hana í minni. Látið ekki smáatriði fara fram hjá ykkur – hrynjandi setninga, sérkenni persónu eða staðar. Takið eftir þegar lesturinn veldur því að hugurinn reikar. Lestur þarf ekki að skapa eina heild eða vera línulegur. Hugur ykkar er ekki eins og ryksuga sem sígur í sig vélrænt orð eftir orð. Þið tapið óhjákvæmilega einbeitingunni, hugsið um eitthvað annað, veltið fyrir ykkur hvað verði í matinn eða hvað þið hefðuð átt að segja við ástvin ykkar í gærkvöldi – við öllu þessu má búast.
Þegar hugurinn reikar beinið athyglinni blíðlega aftur að textanum og haldið lestrinum áfram. Ef þið hafið gleymt því sem stóð í síðustu efnisgrein má alltaf lesa hana aftur. Eða látið það bara vera. Óvissan hefur gildi í sjálfu sér, tvíræðni getur skapað hugarfrið.
Loks skulið þið ekki leggja of hart að ykkur þegar þið búið ykkur undir lesturinn. Þið þarfnist í raun ekki fullkomins hægindastóls með lesljós í réttri stöðu og tebolla sem lagaður er eftir öllum kúnstarinnar reglum. Gjörhyglilestur getur einmitt skapað ykkur skjól í órólegu umhverfi líðandi stundar.
Úr The New York Times