Tveir heimar - Suðurhlíð 35

Að hugleiða í rigningu

Mannslíkaminn er að mestu vatn og samt þykir okkur mörgum óþægilegt að ganga úti í rigningu og blotna. Svona þarf það ekki að vera. Sé gengið í rigningu með gjörhygli  gefst einstakt tækifæri til að nálgast náttúruna og sannreyna náttúru okkar sjálfra,“ – Ian Banyard, stofnandi Cotswold Natural Mindfulness í Gloucestershire á Englandi.
Byrjið með því að virða fyrir ykkur rigninguna af opnum huga og barnslegri forvitni. Sjáið dropana myndast, straumana og pollana.
Takið eftir dansi regndropanna og hringjunum sem þeir mynda á pollunum. Birtan breytist. Ef til vill færist svart ský yfir eða sólin speglast í vatninu sem fallið hefur á jörðina – í dropunum má kannski sjá regnboga.
Leggið við hlustir og heyrið ólík hljóð sem myndast eftir því hvar regnið fellur til jarðar, það skellur, sullast eða dettur í dropatali.
Finnið þegar regndroparnir lenda á fötum ykkar og tilfinninguna sem skapast þegar þeir detta á húðina og renna niður eftir henni – á handleggjum, fótleggjum eða á andlitinu ef þið snúið því til himins. Fatnaðurinn blotnar og leggst að húð ykkar – nemið tilfinninguna.
Andið djúpt og finnið ilm jarðar sem berst að vitum ykkar með rakanum – jarðarilminn sem myndast þegar regn fellur á þurra jörð. Þegar þið andið frá gætið að hvort ekki losni um spennu sem þið hafið myndað í undirmeðvitundinni.
Loks skulið þið halla höfðinu aftur og finna bragðið af regnvatninu, sameinið öll skynfærin fimm – sjón, heyrn, tilfinningu, ilman og smekk – njótið þess eins að vera hér og nú.
Öll höfum við reynt rigningardag sem dapran dag af því að við ákveðum að taka honum illa og láta okkur leiðast. Ýtið þessu á brott og lítið á rigningardag sem daginn til að láta reyna á þolgæði ykkar og nýtið vætuna til endurnýjunar. Eða ákveðið einfaldlega að láta allar skyldur lönd og leið – taka hlutunum eins og þeir eru í friði og sátt við allt og alla – í fullvissu þess að regnið er hluti náttúrunnar eins og við sjálf.
Úr The New York Times